Spurt og svarað

Af hverju býður Halla sig fram?

Halla trúir á samfélag sem hefur hugrekki til að virkja sköpunarkraft sinn til framfara á grunni friðsældar, jafnréttis og sjálfbærni. Þannig getur íslensk þjóð fundið lausnir sem víða er leitað og orðið öðrum fyrirmynd. Halla vill leggja sitt af mörkum á þeirri vegferð.

Af hverju ætti ég að kjósa Höllu sem forseta Íslands?

Halla hefur skýra sýn á hlutverk og mikilvægi embættis forseta Íslands og hefur allt sitt líf lagt sig fram um að gera gagn og láta gott af sér leiða. Hún hefur mikla reynslu af störfum erlendis og öflug alþjóðleg tengsl, en er jafnframt með djúpar rætur í íslensku atvinnulífi og snýr alltaf aftur heim. Halla var í sveit í Skagafirði frá sjö ára aldri, vann á unglingsárum í fiski á Austurlandi og hefur unnið fjölbreytt störf í íslensku atvinnulífi. Halla beitir sér alls staðar fyrir framförum, hún sér og vill virkja styrk Íslands til góðs bæði hér heima og erlendis. Halla er hugrökk, hlý, heilsteypt og heiðarleg. Gildi hennar eru friðsæld, jafnrétti og sjálfbærni.

Hvað hefur Halla gert sem skiptir máli fyrir forsetaembættið?

Halla brennur fyrir bættum heimi og lætur verkin tala. Hún kann að beita áhrifum sínum til góðs og hefur gert það gegnum allan sinn feril, frá vinnu sem mannauðs- og breytingastjóri hjá bandarískum stórfyrirtækjum, gegnum háskólakennslu þar sem hún talar jákvæðni og kjark í hundruð nemenda, með stofnun ábyrgs fjármálafyrirtækis og ekki síst með starfi sínu hjá B Team síðustu ár.

Sem forstjóri B Team hefur hún unnið alþjóðlega að því að breyta hugarfari og starfsháttum í viðskiptaheiminum í átt til ábyrgðar, sjálfbærni, jafnréttis og gegnsæis. Það er gert með því að hvetja viðskiptalífið til að axla ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi og samfélag og vinna að því að stjórnvöld tryggi að leikreglur viðskiptalífsins stuðli að velferð fólks og umhverfis.

Í þessu starfi vinnur Halla með mörgum framsýnustu leiðtogum heims og er alls staðar á heimavelli.

Halla hefur einstakt íslenskt og alþjóðlegt tengslanet á vettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og félagasamtaka þar sem hún vinnur að  framförum þvert á landamæri. Hún hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín, Newsweek setti hana á lista 150 kvenna sem hreyfa við heiminum árið 2012 og nú í mars 2024 valdi Reuters hana sem eina af þeim 20 konum á heimsvísu sem skara fram úr í loftslags- og umhverfismálum.

Þegar Halla bauð sig fram til forseta árið 2016, var í fyrstu á brattann að sækja, en svo átti hún einstakan lokasprett og hlaut tæp 28% atkvæða. Margt hefur gerst síðan. Halla gengur nú til kosninga með ómetanlega reynslu síðustu átta ára í farteskinu. Á þessum tíma hefur hún einkum starfað erlendis og hefur því öðlast ómetanlega innsýn í stöðu og þýðingu Íslands í alþjóðlegu samhengi, einkum þegar kemur að málefnum sem tengjast jafnrétti, loftslagsmálum og náttúru.

Í fyrra gaf Halla út bókina Hugrekki til að hafa áhrif, sem fjallar um það hvernig hún hefur fundið hugrekki til að hreyfa við samfélaginu. Einnig segir hún frá samstarfsfólki sem veitir henni innblástur og kennir lesendum hvernig þau geta valdeflt sig á eigin spýtur með ákveðnum aðferðum. Bókin gefur góða mynd af Höllu.

Hvað er B Team?

B Team eru samtök alþjóðlegra leiðtoga sem vinna saman að sjálfbærni, jafnrétti, jöfnuði og aukinni ábyrgð í forystu og viðskiptum. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Rúmlega 30 leiðtogar eru í B Team og á meðal þeirra eru forstjórar fremstu fyrirtækja heims, fyrrverandi þjóðarleiðtogar og forystufólk í mannréttindum, loftslags- og umhverfismálum. Stjórnarformaður B Team er Jesper Brodin, forstjóri IKEA, og varaformaður er Ester Baiget, forstjóri Novonesis. Þar sameina krafta sína tvö leiðandi norræn fyrirtæki sem beita sér fyrir náttúrulegum lausnum á sviði sjálfbærni. Það má kynna sér meira um B Team á vefsíðu samtakanna (bteam.org) og í nýrri bók (newleadershipplaybook.org).

Halla tók við forstjórastarfi B Team vorið 2018 og hefur gegnt því starfi í nær 6 ár. Höfuðstöðvar samtakanna eru í New York, en starfið fer fram á heimsvísu og felst ekki síst í því að hvetja viðskiptalífið til að axla ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi og samfélag og hvetja stjórnvöld til að tryggja að þær leikreglur sem snúa að viðskiptalífinu tryggi vellíðan fólks og umhverfis.

Er Halla hætt hjá B Team?

B Team hefur veitt Höllu leyfi frá störfum til að bjóða sig fram til forseta Íslands.

Hver eru áhugamál Höllu?

Halla er opin og hrifnæm fyrir menningu og listum, en mestan áhuga hefur hún á fólki, að rækta vini sína og fjölskyldu og finnst gaman að kynnast nýju fólki. Henni finnst gott að ganga úti í náttúrunni og elskar íslenskar sundlaugar.

Hvar stendur Halla í stjórnmálum?

Halla hefur nýtt sinn atkvæðisrétt til að kjósa fólk og málefni sem skipta hana máli og hún telur mikilvæg fyrir komandi kynslóðir. Halla hefur valið að starfa ekki á vettvangi hefðbundinna stjórnmála og hefur kosið fólk og flokka sem spanna litróf stjórnmálaflokka.

Hvaða sóknarfæri sér Halla fyrir Ísland?

Halla telur að Íslands bíði mikilvæg tækifæri í heimi sem leitar lausna hvað snertir frið, jafnrétti og sjálfbærni. Hún er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að vera til fyrirmyndar á heimsvísu og að slíkri ákvörðun fylgi margvísleg sóknarfæri til verðmætasköpunar og jákvæðrar framþróunar fyrir íslenskt samfélag. Halla telur að á þessum sviðum geti hún lagst á árar svo um munar og vill virkja þjóðina til samtals og samstarfs í þágu framtíðar og þess veruleika sem bíður næstu kynslóða. Það er meginástæða þess að hún býður sig fram á nýjan leik til embættis forseta Íslands, því Halla telur að áttaviti þjóðarinnar, með skýrri langtímasýn og gildum eigi best heima á Bessastöðum.

Hver eru helstu stefnumál Höllu?

Friður, jafnrétti og sjálfbærni með heilbrigðu jafnvægi milli heilsu fólks, umhverfis og hagkerfis eru þau málefni sem Halla brennur fyrir og skipta næstu kynslóðir mestu máli. Þetta hafa verið hennar leiðarljós í lífi og starfi, nú síðustu árin á alþjóðlegum vettvangi leiðtoga í atvinnulífi og stjórnmálum. Þar hefur Halla fengið dýrmæta reynslu og byggt upp öflugt alþjóðlegt tengslanet, sem hún hlakkar til að nýta í þágu lands og þjóðar.

Hvernig tengist Þjóðfundurinn 2009 forsetaframboðinu 2024?

Halla hefur mikið verið að velta fyrir sér hvernig við ræktum best samtal og samstarf á milli kynslóða um það hvers konar samfélagi við viljum búa í og skapa fyrir næstu kynslóðir Íslendinga. Á Þjóðfundi árið 2009 valdi slembiúrtak þjóðarinnar sér sameiginleg gildi sem þátttakendur vildu að vörðuðu leiðina að sjálfbæru samfélagi. Gildin voru heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti, virðing og ábyrgð. Halla og þau hin sem skipulögðu Þjóðfundinn og voru í Laugardalshöllinni þennan dag gleyma aldrei þeirri orku sem leysist úr læðingi þegar þjóðin átti þetta einstaka og mikilvæga samtal, þvert á ólíkar kynslóðir og þjóðfélagshópa. Halla sá þar einlægan vilja fólks til að vinna saman að því að móta framtíðarsýn og gildi þjóðarinnar. Þessa vinnu hyggst hún taka með sér á Bessastaði og virkja enn frekar visku þjóðarinnar í að móta áttavita þjóðarinnar enn betur. Halla hefur ennfremur þá trú að þessi nálgun á stór og stefnumarkandi mál sem þjóðin þarf nú að takast á við geti reynst vel og að forseti geti ljáð stuðning við að svo verði.

Hvað segir Halla um árið sem hún var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs?

Halla var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands fyrst kvenna frá mars 2006 til vorsins 2007. Hún sagði upp störfum eftir liðlega eitt ár til að stofna fjármálafyrirtækið Auður Capital. Þar fékk hún að starfa á grunni sinna gilda, sem gengu út á aukna ábyrgð í viðskiptum og mikilvægi þess að setja velferð fólks og samfélags á dagskrá frekar en eingöngu hagnaðinn. Halla hefur síðan unnið að þeirri sýn í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, ekki síst í störfum sínum með B Team. Hún er ekki sammála öllu því sem Viðskiptaráð talaði fyrir á þessum tíma, meðal annars í stefnuskránni ,,Hvernig verður Ísland best í heimi” til dæmis náttúruauðlindum í einkaeign, lágum sköttum og stórtækri einkavæðingu í velferðarkerfinu. Hjá B Team hefur hún beitt sér fyrir ábyrgri skattlagningu, verndun náttúruauðlinda og að stjórnvöld rétti reglurnar til að tryggja vellíðan fólks og náttúru.

Hver er afstaða Höllu til málskotsréttar forseta Íslands?

Forseti Íslands hefur samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar heimild til að vísa lögum í dóm þjóðarinnar. Málskotsrétturinn er mikilvægur öryggisventill, sem Halla er staðráðin í að nýta ef svo virðist sem gjá hafi myndast á milli þings og þjóðar. Hún telur mikilvægt að umgangast málskotsréttinn af virðingu og minnir á að forseta beri að hlusta vel á öll sjónarmið áður en komist er að þeirri niðurstöðu að þjóðin þurfi að hafa úrslitavald með atkvæðagreiðslu um hvort lögin öðlast gildi. Þetta gætu verið tilvik á borð við mannréttindi og grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og næstu kynslóða eins og var í tilfelli Icesave.