Veðjaðu á gott fólk sem lætur gott af sér leiða

10.04.2018

Þessa vikuna tek ég þátt í Skoll World Forum sem haldin er ár hvert í Oxford. Þar koma saman frumkvöðlar og leiðtogar sem eiga það sameiginlegt að vilja nýta krafta sína, tengsl og fjármagn til þess að bæta heiminn.

Jeff Skoll, sem stofnaði Ebay, ákvað í kjölfar sölu fyrirtækisins að beina sínum kröftum og fjármagni til góðs. Hann stofnaði Skoll Foundation árið 1999 með þá metnaðarfullu sýn að stuðla að sjálfbærum heimi friðar og framfara. Stofnunin hefur það markmið að styðja við mikilvægar umbreytingar í heiminum með því að fjárfesta í, tengja saman og fagna frumkvöðlum og forystufólki sem vinnur að lausnum á þeim stóru áskorunum sem að heiminum steðja. Má þar m.a. nefna loftslagsbreytingar, fátækt og ójöfnuð.

Stofnun Jeff hefur þegar veitt um $400 milljónum til stuðnings fjölbreyttra verkefna um heim allan. Hann hefur einnig framleitt fjölda kvikmynda og heimildamynda í gegnum Participant Media, en allar hafa þær að markmiði að kasta ljósi á samfélagslegan vanda af ýmsum toga. Má þar m.a. nefna myndir eins og Inconvenient Truth I og II, þar sem loftslagsbreytingar eru teknar fyrir. Food Inc., sem fjallar um alvarleg vandamál matvælageirans og Spotlight, sem fjallar um kynferðislega misnotkun drengja innan kaþólsku kirkjunnar.

Ég er full aðdáunar á þessu starfi sem frumkvöðullinn Jeff Skoll kom af stað fyrir nær tveimur áratugum síðan og ákaflega þakklát fyrir forystufólk eins og hann. Ég er ekki ein um það, því nær 2000 manns koma til Oxford á hverju ári til að taka þátt í umræðum og læra hvert af öðru. Fastagestir eru t.d. Al Gore, Bono (U2) og Mary Robinson, fv. Forseti Írlands. Mér var fyrst boðið að vera með fyrirlestur á Skoll World Forum árið 2011, en sökum anna þá afþakkaði ég gott boð. Það voru mikil mistök sem ég áttaði mig á nokkrum árum síðar þegar ég gaf mér loks tíma til að vera þátttakandi í þessu mikilvæga samtali. Ég var þá þess heiðurs aðnjótandi að ræða einkenni góðra leiðtoga í félagsskap við Mary Robinson, fv. Forseta Írlands og dóttur Desmund Tutu, sem er líklega fyrsti kvenprestur í Afríku sem komið hefur útúr skápnum. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum, en ég lærði líklega enn meira sjálf og fór heim full af bjartsýni því það er svo margt gott fólk að láta mikið gott af sér leiða. Það var einmitt innblásturinn sem Jeff hafði að leiðarljósi þegar hann lagði af stað með sínan stofnun og bað John W. Gardner um góð ráð. John gaf honum einföld skilaboð sem við getum öll tekið til okkar:

“Bet on good people, doing good things.”

Halla á Skoll Forum