#MeToo og hvað nú? Er þinn vinnustaður að stinga hausnum í sandinn?

22.01.2018

#MeToo Sögurnar hafa dunið á okkur úr öllum geirum og kimum okkar samfélags og hafa vart látið nokkurt okkar ósnortið. Þær sýna svo ekki verður um villst að hjá okkur hefur óheilbrigð menning þrifist með skelfilegum afleiðingum fyrir fórnarlömbin sem og samfélagið allt. Þessar sorglegu afhjúpanirnar kalla á að forystufólk rísi nú upp, dragi línu í sandinn og taki af allan vafa um að ofbeldi, áreitni og einelti verði ekki liðið í okkar samfélagi. Það er kominn nýr tími og enginn alvöru leiðtogi lætur sitt eftir liggja. En hvað ber forystufólki á vinnustöðum að gera?

  1. Ekki gera ekki neitt

Ekki stinga hausnum í sandinn og líta á þessa byltingu sem eitthvað sem kemur þér og þínum vinnustað ekki við. Stjórn, forstjóri og stjórnendur bera ábyrgð og axli þeir hana ekki þá getur fyrirtækið orðið fyrir umtalsverðu tjóni. Enn stærra er þó líklega tækifærið sem felst í því að skapa fyrirtækjamenningu þar sem allir starfsmenn ná að blómstra, lausir við ofbeldi, einelti og áreiti. Framsýnir leiðtogar fara ekki í vörn, heldur senda skýr skilaboð um að öll slík hegðun sé ólíðandi á þeirra vinnustöðum og þeir bakka slíkar yfirlýsingar upp með skýrum aðgerðum.

  1. Setjið upp skýrt ferli og tryggið sömu meðferð fyrir alla

Ef fyrirtæki þitt er ekki þegar með skýrt og hlutlaust ferli, sem tryggir öllum aðilum réttláta (og eins) málsmeðferð, þá er nú rétti tíminn til að bæta úr því. Lykilatriði er að fórnarlömb viti hvernig beri að tilkynna tilvik, fái stuðning í að takast á við sína reynslu, viti að óháð rannsókn fer fram og að skýr viðurlög séu við öllu slíku athæfi. Það er skynsamlegt að hafa fleiri en eina leið færa fyrir tilkynningar fórnarlamba, því ef tilkynna á t.d. yfirmanni um tilvik þá er sú leið augljóslega ekki fær ef yfirmaðurinn er gerandinn. Í litlum og tengdum samfélögum er líka ýmislegt sem mælir með því að fórnarlömb þurfi að geta leitað til utanaðkomandi/óháðra aðila. Reynslan sýnir að innan við 30% tilfella eru tilkynnt sem er miður, því vinnustaðir geta ekki upprætt þessa hegðun án vitundar. Það er því hagur allra að gera fórnarlömbum greiðfært að segja frá og takast í framhaldinu á við hvert tilvik af alvöru og fagmennsku.

  1. Virkjið stjórnendur og starfsmenn

Skýr skilaboð að ofan skipta sköpum en ekki er síður mikilvægt að virkja aðra stjórnendur og starfsmenn og bjóða þeim til þátttöku í umræðum og þjálfun. Ein áhrifaríkasta leiðin við að uppræta ofbeldi, áreitni og einelti er að virkja þá sem venjulega standa hjá, kenna þeim sem sjá eitthvað að bregðast við. Takist að fá okkur sem allt of oft veljum hliðarlínuna til að stíga nú inní allar slíkar aðstæður með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, þá mun með tímanum takast að breyta menningunni.

  1. Nýtið tækifærið til að bæta vinnustaðamenninguna fyrir alla

Menning er flókið fyrirbrigði og það getur tekið mjög langan tíma að skilja, móta og breyta menningu. #MeToo býður uppá einstakt tækifæri til að öðlast dýpri skilning á menningunni á þínum vinnustað. Hvaða gildi ráða raunverulega för þegar kemur að ákvörðunum í þínu fyrirtæki? Hvaða undirliggjandi viðhorf hafa áhrif á framþróun og möguleika til þess að innleiða breytingar?  Bandarískar rannsóknir sýna að fyrirtæki verði af $450 – $550 milljörðum Bandaríkjadala vegna vanvirkni starfsmanna (employee disengagement). Er þitt fyrirtæki að ná því besta útúr sinni stærstu fjárfestingu, starfsfólkinu?

  1. Verum viðbúin bakslagi

Um leið og ég fagna einlæglega tækifærinu sem felst í þessari menningarbyltingu, þá finnst mér ástæða til að vara við mögulegu bakslagi. Ég hef undanfarna mánuði heyrt nokkra áhrifamenn tjá sig og segja að nú muni þeir alls ekki þora að leiðbeina ungum konum um sinn starfsframa, bjóða þeim út að borða, á tengslaatburði, o.s.frv. Það væru mikil mistök að leyfa slíkum ótta að grassera, því það er einmitt afar mikilvægt að þeir sem eru í valdastöðum séu duglegir (og óhræddir) að leiðbeina og styðja við þá sem við þurfum að sjá í valdastöðum til að menningarbreyting geti átt sér stað. Forðumst öfgar í umræðunni og einblínum á opna umræðu og aðgerðir í þágu bætts vinnuumhverfis fyrir alla, konur og karla.

metoo