Hvað á ég að kjósa? Fimm spurningar til stjórnmálaflokka

26.10.2017

Ég er ein fjölmargra sem er í töluverðum vandræðum með að ráðstafa atkvæði mínu nk. laugardag. Ég er ekki í neinum vafa um að ég muni kjósa og nota þetta tækifæri til að hvetja alla til að gera slíkt hið sama. Ég hef aldrei skilað auðu, en viðurkenni að hafa nú í fyrsta sinn velt þeim valkosti fyrir mér. Ef mið er tekið af fjölmörgum samtölum undanfarinna vikna, á förnum vegi, í sundlaugunum og meðal fjölskyldu og vina þá er ég ekki ein um að vera í þessari stöðu. Hugsanlega eru atkvæði í höndum óákveðinna kjósenda umtalsvert fleiri en atkvæði nokkurs einstaks stjórnmálaflokks. Það er vissulega hægt að velta sér uppúr ástæðum þessarar stöðu, því ekki skortir fjölda valkosta, en einfaldast er að viðurkenna bara þá staðreynd að traust okkar á stjórnmálum er ekki mikið þessi misserin. Það er afleit staða og er okkar allra að reyna að laga.

kosningar 2017 formenn

Ég hef lagt mig fram um að hlusta, lesa og skilja hvað hver stjórnmálaflokkur stendur fyrir og hverskonar mannauð er að finna í hverjum og einum. Suma stjórnmálamenn og konur þekki ég í reynd, í slíkum tilvikum er auðveldara að meta gáfur þeirra og gerð. Í öðrum tilvikum þekki ég lítið sem ekkert til þeirra og verð því að dæma þá af frammistöðu sinni í fjölmiðlum. Ég hef séð fjölmargt fólk sem ég get hugsað mér að kjósa, en það fólk er ekki að starfa saman í einum stjórnmálaflokki. Ég vildi svo gjarnan fá að velja fólk, frekar en flokka, en það er ekki í boði og því langar mig að biðja stjórnmálaflokkanna að hjálpa mér, og mögulega öðrum í minni stöðu, með því að svara eftirfarandi fimm spurningum. Þær ná utanum það sem skiptir sköpum fyrir framtíðina og trúverðug svör munu hafa áhrif á það hvernig ég ráðstafa atkvæði mínu.

  1. Hver er framtíðarsýn þíns stjórnmálaflokks fyrir Ísland (í einni setningu takk)?
  2. Hver eru grunngildi þíns stjórnmálaflokks/Hvaða gildi eru leiðarljós í ykkar starfi og ákvarðanatöku (Ekki fleiri en 3-5 orð takk)?
  3. Hvaða þrjá málaflokka ætlið þið að setja á oddinn á næsta kjörtímabili?
  4. Hefur stjórnmálaflokkurinn og/eða frambjóðendur hans tekið þátt í að dreifa neikvæðum og/eða röngum fréttum um aðra stjórnmálaflokka og/eða frambjóðendur í þessari kosningabaráttu (Já eða Nei, takk)?
  5. Hvernig ætlið þið að stuðla að aukinni sátt í samfélaginu og bættum vinnubrögðum og orðræðu á alþingi sem og í samfélaginu almennt?

Ég þakka fyrirfram fyrir svörin og hvet ykkur sem viljið sjá svörin til að deila og sjá þannig til þess að þetta fari hvorki framhjá stjórnmálaflokkunum né óákveðnum kjósendum. Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að þakka því fólki sem býður sig fram til þings og þjónustu við okkar þjóð. Þetta eru oft vanþakklát störf og margir myndu líklega ekki láta bjóða sér það sem þingmenn okkar þurfa oft að þola. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og hvet ykkur til að svara þessum spurningum, því ég veit að svörin við þeim gætu hjálpað mörgum að ráðstafa sínu atkvæði vel á laugardaginn. Ég hvet kjósendur til að nota haus, hjarta og hendur og kjósa.