Gildi Leiðtoga í Breyttum Heimi

25.09.2017

Í síðustu viku tók ég þátt í ráðstefnu á vegum WISC (Women’s International Study Center) í Santa Fe, New Mexico. Við áttum þar samtal um forystu og grunngildi, ég og fv. Forseti Finnlands, Tarja Halonen. Að lokinni ráðstefnu heiðruðu stofnendur WISC okkur með viðurkenningu sem m.a. hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsberg hefur hlotið. Ég er ákaflega þakklát fyrir þessa viðurkenningu en viðurkenni að ég finn einnig til auðmýktar í svo merkilegum félagsskap.

wisc award halla og halonen

WISC Founders’ Award Ceremony

Tarja Halonen og ég áttum dýnamískar umræður í Santa Fe og ráðstefnugestir virtust einlæglega áhugasamir um Norrænar leiðir í forystu. Mig langar að deila með ykkur nokkrum atriðum úr okkar góða samtali með áherslu á þau málefni sem eru mér sérlega hugleikin.

  1. VIÐ frekar en ÉG

Tarja Halonen útskýrði hvernig Finnar leggja áherslu á VIÐ, frekar en Ég. Hún deildi sinni sýn á góðan árangur í velferðakerfi Finna með eftirfarandi hætti: “Þegar þú leggur grunn að velferðarsamfélagi, þá dugar ekki að gera það nógu gott fyrir nágrannan, heldur þarf það að vera nógu gott fyrir þig sjálfan.” Hún talaði einnig af ástríðu um mikilvægi þess að hafa tilgang með sínum störfum og lagði áherslu á að nú þyrftu allir að leggjast á árarnar til að leita lausna við afleiðingum loftslagsbreytinga.

wisc conference1

Dialogue on Leadership and Values

Ég hef um langt skeið talað fyrir breyttum áherslum í forystu og vil sjá leiðtoga leggja minni áherslu á sjálfan sig og eigin hagsmuni og verulega aukna áherslu á alla haghafa og hagsmuni heildarinnar. Ég er sannfærð um að einungis leiðtogar sem gera það, hvort sem er á vettvangi stjórnmála eða viðskipta, nái árangri til lengri tíma litið. Ég trúi á víðari skilgreiningu árangurs í viðskiptum (Profit – People – Planet) og að löngu sé kominn tími til að mæla fleira en hagvöxt þjóða, og horfa þá einnig til þátta sem hafa með samfélagsleg gæði og framfarir að gera. Við þurfum aukinn fókus á að þroska leiðtoga sem hafa til að bera hæfni og eiginleika umbreytingarleiðtoga, svo þeir megi aðlaga og hanna okkar kerfi og samfélag að breyttum heimi. Við þurfum líka að hafa hugrekki til að hafna leiðtogum sem telja sig og sína hagsmuni stærri og mikilvægari en hagsmuni heildarinnar. Kannski er árangursríkast að byrja á því að skoða menntun og uppeldi barna okkar?

  1. Menntun sem grunnur að velgengni

Finnar búa við eitt öflugasta menntakerfi í heimi og það er að öllu leyti ríkisrekið. Þeir hafa valið að hafna því kerfi sem flest vestræn ríki búa við og hefðbundinni áherslu á miðstýringu og stöðluð próf. Í stað þess hafa þeir byggt upp grunnskóla sem hafa nær engin próf og engan heimalærdóm fyrr en á unglingsárum og þeir leggja áherslu á að hafa alla með. Eina staðlaða prófið er við 16 ára aldur. Í Finnlandi fara sækjast bestu nemendurnir eftir því að komast í kennaraháskóla og það er svo mikil samkeppni um að komast inn að því er gjarnan líkt við inntöku í bestu háskóla í heimi. Það er borin mikil virðing fyrir kennurum í Finnlandi og laun þeirra eru sambærileg launum annarra háskólamenntaðra starfsmanna. Þessi nálgun í menntamálum skilar finnskum börnum í forystu í lestri, stærðfræði og vísindum og er afleiðing viðamikillar endurskoðunar skólakerfisins. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort að við gætum ekki dregið einhvern lærdóm af reynslu og árangri Finna í þessum mikilvæga málaflokki?

  1. Jafnrétti skilar efnahagslegum og samfélagslegum ávinningi

Ég hef alltaf talið það forréttindi að alast upp í landi þar sem kraftar kvenna eru virkjaðir til að skapa efnahagslegar og samfélagslegar framfarir. Á Íslandi er atvinnuþátttaka kvenna með því hæsta í heimi og konur og karlar hafa jafnan rétt til foreldraorlofs. Ég dáist að konunum sem lögðu niður sín störf þann 24. Október 1975 og sýndu svo ekki verður um deilt að samfélagið gengur ekki upp þegar konur eru ekki að störfum. Ég er stolt af því að við Íslendingar kusum fyrst þjóða konu sem forseta og ég veit að Finnar eru stoltir af sínum fyrsta kvenforseta. Þessar konur, og þeir karlar sem unnu með þeim og studdu þær, hafa ekki bara rutt úr veginum hindrunum heldur hafa þau orðið til þess að Norrænu löndin skipa sér nú í forystu jafnréttismála og aðrar þjóðir horfa öfundaraugum til þess efnahagslega- og samfélagslega ávinnings sem það skapar.

  1. Gildi skipta máli

Ég fékk tækifæri til að heimsækja frumbyggja í Santa Clara Pueblo í New Mexico.

IMG_8408

Tessa og Nora í Santa Clara Pueblo

Þar sögðu þeirra elstu og vitrustu kvenleiðtogar okkur söguna af þeim grunngildum sem þau hafa byggt sitt samfélag á. Þeirra leiðarljós í blíðu og stríðu eru dugnaður, kærleikur, virðing, fjölskylda og að deila sameiginlegum auðlindum. Það kom mér á óvart hversu lík þessi gildi eru þeim sem ég er alin upp við, sem og þeim gildum sem íslenska þjóðin valdi á Þjóðfundi árið 2009. Þau gildi voru einmitt ein helsta ástæða þess að ég bauð mig fram til forseta á síðasta ári. Mig langaði til að græða sár samfélagsins og sameina okkur á grunni þessara vel völdu manngilda. Mér virðist sem það skipti ekki öllu hvort við erum frumbyggjar í New Mexico, Finnar eða Vestfirðingar, við eigum miklu meira sameiginlegt en við höldum, að minnsta kosti þegar við ræðum heiðarlega og manneskjulega um það hvaða gildi skipta sköpum fyrir okkar samfélög. Ég get þó ekki annað en tekið undir með ráðstefnugestum sem telja okkur hafa of fáa leiðtoga sem starfa og leiða á grunni góðra gilda. Hvernig förum við að því að þroska fleiri slíka leiðtoga? Eða er betra að spyrja hvernig finnum við hugrekkið til þess að leysa úr læðingi leiðtogann sem ég trúi að búi í hverju okkar?

gildi-thjodfundar-appelsinugulur-rammi

Gildin, Þjóðfundur 2009

  1. Húmorinn hjálpar

Tarja Halonen varð fræg í Bandaríkjunum þegar fólk áttaði sig á því að hún væri nauðalík Conan O’Brien (frægur spjallþáttastjórnandi). Hún ákvað að nálgast þessa umræðu með góðum húmor og þetta reyndist allt verða til þess að Finnland fékk betri (og ódýrari) kynningu í Bandaríkjunum en nokkru sinni áður. Hún sagði ráðstefnugestum einnig söguna af því hvernig sænskir fjölmiðlar hefðu tekið uppá því að kalla hana Múmín-mömmu. Eiginmaður hennar var í framhaldinu spurður að því hvort að það væru líkindi með þeim tveim. Hann svaraði með glettni og sagðist telja að í hverri konu væri blanda af Múmín-mömmu og Míu Litlu, sem er baldna og óstýrláta stúlkan í Múmín fjölskyldunni.

múmínfjölskyldan

Við grínuðumst í framhaldinu með þá staðreynd að flestir kvenleiðtogar reyna að finna rétta jafnvægið á milli góðu stúlkunnar og þeirrar óþekku, sem storkar viðteknum venjum. Ég hef á köflum verið talin nokkuð baldin, en ég er engu að síður stoltust af þeim titli sem blaðamaður New Yorker gaf mér í grein sem hann skrifaði um forsetaframboðið en þar kallaði hann mig einlægni”emoji” (A living emoji of sincerity). Það hefur tekið mig tíma og vinnu að átta mig á þeim styrk sem felst í að virkja mína tilfinningagreind, og í leiðtogastörfum hefur hún líklega reynst mér mikilvægari en menntun mín og tengslanet.

Það er mikilvægt fyrir leiðtoga að taka sig ekki of alvarlega, missa ekki sjónar á húmornum sem getur reynst manni verulega gott veganesti í erfiðum aðstæðum. Ég hafði einstaklega gaman af því að kynnast þessari einstöku konu sem var forseti Finnlands frá 2000-2012. Hún er hlý og einlæg og það er aldrei langt í glettnina. Á sama tíma hamast hún af alvöru við að hafa góð áhrif á heiminn, orðin 74 ára.

president halonen repairs sweater

Systur hjálpast að sagði Tarja og gerði við saumsprettu í peysunni minni

Að lokum vorum við spurðar hvort við hefðum einhver einföld ráð fyrir ráðstefnugesti sem vildu vinna að því að verða betri leiðtogar. Við vorum einlæglega sammála, lykillinn að árangri er að vera maður sjálfur, starfa á grunni góðra gilda og finna sér tilgang sem er stærri en maður sjálfur.