Þörf fyrir umbreytingaleiðtoga

08.09.2017

Í sumar tók ég þátt í einstaklega áhugaverðri ráðstefnu á vegum Rockefeller stofnunarinnar í Bellagio við Lake Como á Ítalíu. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Skoll Foundation (stofnun Jeff Skoll, stofananda Ebay), Carter Center (stofnun Carters forseta og konu hans), the Council of Women World Leaders (Samtök sem Vigdís Finnbogadóttir og Laura Liswood stofnuðu) og Apolitical (netfjölmiðill sem einbeitir sér að því að deila uppbyggilegum reynslusögum af vettvangi stjórnmála og stjórnmálaleiðtoga).

panel 2 á Lake Como

Aðstandendur boðuðu 28 kvenleiðtoga frá sautján löndum til samtals með það að markmiði að leita leiða til að bæta forystu (leiðtogun) á vettvangi stjórnmála, fyrirtækja og í samfélaginu almennt. Á dagskrá voru þær flóknu áskoranir sem felast í loftslagsbreytingum, auknum ójöfnuði, mannlegu öryggi og tæknibreytingum.

Þetta samtal var ólíkt öllum þeim ráðstefnum og fundum sem ég hef tekið þátt í þar sem rætt er um forystu og mikilvægi þess að fjölga konum í leiðtogastöðum. Þátttakendur voru vissulega sannfærðir um að fjölgun kvenleiðtoga leiði til bættrar forystu en voru jafnframt sammála um að tími sé kominn til að horfa fyrst og fremst til fjölgunar leiðtoga sem hafa til að bera eiginleika til að leiða nauðsynlegar breytingar. Heimurinn þarfnast einfaldlega fleiri umbreytingaleiðtoga, óháð kyni, til að takast á við þær flóknu og krefjandi áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á öllum sviðum okkar samfélags.

Women Leaders Lake Como

Í stuttu máli má lýsa eiginleikum umbreytingarleiðtoga með eftirfarandi hætti:

Sterk sýn (Vision): Umbreytingarleiðtogi horfir til framtíðar og býr yfir skilningi og getu til að mála nýja framtíðarsýn fyrir aðra.

Samúð (Empathy): Umbreytingarleiðtogi getur sett sig í spor annarra og skilið aðstæður þeirra.

Þrautseigja (Perseverance): Umbreytingarleiðtogi heldur ávallt áfram og lætur ekki erfiðleika, mótlæti eða hindranir standa í vegi fyrir árangri.

Samfélag (Community): Umbreytingarleiðtogi tekur hagsmuni og áhuga heildarinnar fram fyrir hagsmuni einstakra aðila.

Hugrekki (Risk/Courage): Umbreytingarleiðtogi nær markmiðum sínum með því að mæta óöryggi og óvissu með hugrekki og sterkri sannfæringu.

Samstarf (Collaboration): Umbreytingarleiðtogi leitar eftir samstarfi ólíkra aðila og byggir bandalög við aðra til að skapa, framkvæma og láta hluti gerast.

Hreyfiafl (Mobilization): Umbreytingarleiðtogi kemur hreyfingu á hlutina með því að tengja fólk saman og skapa samfélag og stemningu í kringum sameiginleg hugmyndafræðileg markmið.

Við sem tókum þátt í þessu fyrsta samtali alþjóðlegra kvenleiðtoga í Bellagio skuldbundum okkur til að þroska og þróa þessa eiginleika í eigin fari og styðja jafnframt aðra í að gera slíkt hið sama. Við viljum sjá fleiri konur í áhrifastöðum og trúum því að aukið kynjajafnvægi muni leiða til bættrar forystu og nauðsynlegra umbreytinga. Við teljum mikilvægt að rannsaka betur þau áhrif sem forysta kvenna og aukið  kynjajafnvægi hefur á forystu almennt, ekki síst á vettvangi stjórnmála. Við erum ákveðnar í að taka virkan þátt í að leiða jákvæðar umbreytingar og erum þegar að þróa áfram þær hugmyndir sem fæddust í Bellagio. Markmið okkar er að vinna saman að því að leysa úr læðingi þann kraft sem má finna í kvenleiðtogum sem hafa til að bera hugsjónir og hugrekki og starfa saman að betri leiðum og úrlausnum á okkar fjölmörgu og flóknu áskorunum.  Við erum þess fullvissar að slíkt mun leiða til þess að góðar breytingar sem í dag virðast óhugsandi, jafnvel ómögulegar verði á endanum óhjákvæmilegar.

Panel umræður á Lake Como