Ferðaþjónustan: Forysta, framtíðarsýn og hugrekki er allt sem þarf

04.07.2017

Fyrir ári síðan fór ég víða um land og hvar sem ég kom bar ferðaþjónustuna á góma. Ég hlustaði á Íslendinga ræða stefnuleysi í þessum mikilvæga málaflokki sem snertir okkur öll. Áhyggjur voru viðraðar um of mikla fjölgun ferðamanna á of skömmum tíma, og afleiðingar þess á okkar innviði, náttúru og samfélag. Ég hef nú, ári síðar, nýlokið ferð um landið í félagsskap erlendra gesta og finn mig knúna til að leggja orð í belg.

Umræða um ferðaþjónustuna er mikil þessa dagana og fer oft fram í upphrópunarstíl í stað þess að vera uppbyggileg. Það er líklega afleiðing þess að fólkið í landinu finnur hvorki né sér skýra forystu og framtíðarsýn sem þeim hugnast, heldur upplifir að nálgunin líkist einhverskonar “gullgrafaraæði”, þar sem markmiðið virðist stundum vera að hafa sem mest uppúr erlendum gestum áður en þeir hverfa (líkt og síldin?).

Ferðaþjónustan stendur sig vel

Ég vil byrja á því að hrósa ferðaþjónustunni, þakka fyrir mig og mína, sem og fyrir mikilvægt framlag til viðsnúnings íslensks efnahags. Þegar á reynir sýnum við Íslendingar gjarnan hvað í okkur býr og ferðaþjónustan hefur staðið sig ótrúlega vel í að takast á við gríðarlega öran og í raun ósjálfbæran vöxt. Ferðaþjónustunni hefur tekist að skapa störf og gjaldeyri sem skilar sér til okkar allra. Við Íslendingar eigum því að leggja okkur fram um að sýna gestum okkar og aðilum sem þeim þjóna virðingu og þakklæti. Ég hef kynnst spennandi nýsköpun um allt land, hitt duglega frumkvöðla og fróða leiðsögumenn og notið sem aldrei fyrr fegurðar íslenskrar náttúru. Þetta land og þetta samfélag er einstakt, verðmætin sem felast í hvoru tveggja eru okkar allra. Það er í þessum anda sem mig langar til að velta upp spurningum og hugmyndum og hvetja okkur til að hafa hugrekki til að gera betur og búa svo um hnútana að ferðaþjónustan verði sjálfbær atvinnugrein sem starfar í sátt við samfélag og umhverfi og eigi bjartar framtíðarhorfur.

Lærum af öðrum

Fyrir tveimur árum fór ég í einstaka ferð niður Mikla Gljúfur (e. Grand Canyon) á gúmmíbátum og tveimur jafn fljótum. Fegurðin var ólýsanleg, upplifunin einhver sú besta sem ég hef notið. Ég lærði margt af þeirri ferð sem ég tel að gæti gagnast hér á landi. Á hverju ári fá einungis 22.000 manns að ferðast á Colorado ánni í gegnum Mikla Gljúfur. Þessi aðgangsstýring var sett á til að vernda þetta undur veraldar fyrir of miklum ágangi, en einnig til að tryggja að upplifunin yrði einstök. Fólk bíður í mörg ár eftir að komast í slíka ferð og greiðir myndarlega fyrir. Við skipulögðum okkar ferð með löngum fyrirvara og fórum í fylgd fjölmargra leiðsögumanna sem tóku ávallt góðan tíma í að kenna okkur viðeigandi og sjálfbæra umgengni. Í Mikla Gljúfri er reglan að allt sem fer þangað með þér fer einnig þaðan með þér, það á einnig við persónulegan úrgang (já, saurinn sjálfan). Væri úr vegi að við ræddum slíka nálgun á heimsóknir á viðkvæmustu staði Íslands? Er eðlilegt að það sé í raun frjáls og óheftur aðgangur að hálendi Íslands og helstu náttúruperlum og að þangað komi fólk mis vel búið og sýni okkar einstöku náttúru mis mikla virðingu? Yrðu störf leiðsögumanna verðmætari ef við gerðum kröfur um að nota þá til allra ferða utan vega og gerðum þá jafnframt kröfur til þeirra um að kenna viðeigandi umgengni í íslenskri náttúru og samfélagi? Getum við ekki lært þetta og margt annað með því að horfa til annarra, forðast að endurtaka mistök og einbeitt okkur að því að læra af því sem vel er gert og aðlaga það svo að okkar aðstæðum?

Verndum náttúruna

Náttúran og mannfæðin á Vestfjörðum heillaði bæði mig og gesti mína og þar fannst okkur Ísland vera “ekta”, og svo ólíkt öllum öðrum stöðum. Í sundlauginni á Reykjanesi hittum við franskan mann sem var okkur augljóslega sammála, enda í sinni 17. ferð til Íslands, hann fer alltaf á Vestfirði. Í Fljótavík vorum við alein í heiminum, veiddum okkur til matar, gengum á fjöll og nutum fegurðar sem engin orð fá lýst. Þessi upplifun var hápunktur ferðarinnar í hugum minna gesta, sem þó nutu alls sem Ísland hefur að bjóða til hins ýtrasta. Ég á ættir mínar að rekja til Vestfjarða og fann fyrir stolti að kynna þeim þann fjársjóð sem þar er að finna. Ég geri mér vel grein fyrir því að atvinna og verðmætasköpun skiptir miklu fyrir samfélagið á Vestfjörðum og án þess mun byggð ekki blómstra. Tel engan vafa leika á því að stærstu tækifæri Vestfjarða munu felast í að byggja þar upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem veitir upplifun á heimsmælikvarða og tel mikilvægt að Vestfirðir hugi sameiginlega að framtíðarsýn og forystu þar um. Það sama mætti segja um mörg önnur svæði landsins en eftir sitja spurningar um hvort og þá hvernig við tryggjum að þessi verðmæti verði til staðar fyrir komandi kynslóðir? Eigum við að aðgangsstýra ákveðnum svæðum landsins? Bláa Lónið tók upp aðgangsstýringu fyrir tveimur árum síðar og er ekki að sjá að það hafi dregið úr vinsældum þeirra eða arðsemi. Eigum við að skipuleggja fleiri þjóðgarða og tryggja nauðsynlega þjónustu og náttúruvernd innan þeirra? Eigum við að setja gestum okkar umgengnisreglur við komuna til landsins og innheimta um leið sérstakt náttúruverndargjald, eða sérstakt komugjald? Spurningarnar eru margar, og best að spyrja þær áður en það er um seinan.

Í Fljótavík

Í Fljótavík

Hugum að aðgengi, innviðum og gjaldtöku

Þegar við komum á Suðurlandið og heimsóttum vinsælustu ferðamannastaði Suðurlands brá gestum mínum (og mér) nokkuð í brún. Mannfjöldinn og ágangurinn á náttúruna var víða sláandi mikill og ástand salerna (þar sem þau var að finna) var oft fyrir neðan allar hellur og ekki til þess fallið að hvetja fólk til frjálsra framlaga.

En hvernig fer rúmlega þrjú hundruð þúsund manna samfélag að því að taka á móti á þriðju milljón ferðamanna, byggja upp viðeigandi innviði og þjónustu og vernda jafnframt sína náttúru og samfélag? Það virðast vera ýmsar tilraunir í gangi hvað þetta varðar. Gesti mína rak í rogastans þegar þeir voru rukkaðir um klósettgjald að lokinni sýningunni “How to be Icelandic” í Hörpu. Þau höfðu keypt aðgangsmiða fyrir tæplega þrjátíu þúsund krónur en voru svo rukkuð um þrjú hundruð krónur þegar þau ætluðu á baðherbergið á leið sinni út í bílageymslu. Einn þeirra hafði á orði hvort þetta myndi ekki verða til þess að fólk kastaði af sér vatni í bílageymslunni? Ekki veit ég hvort svo fari, en augljóslega féll þessi nýbreytni ekki vel í kramið hjá þeim og töldu þau hana í besta falli undarlega.

IMG_7034

Við Seljalandsfoss með „kaldan á klaka úr Kötlu“

Við Seljalandsfoss lagði hvert þeirra til $20 í söfnunarbauk því þau höfðu einlægar áhyggjur af því að þar væri náttúran í hættu og þeim var ekki sama. Á Skógum áttu þau hinsvegar í erfiðleikum með að greiða 300 kr. frjálst framlag fyrir klósettferð þar sem ástand baðherbergja var óásættanlegt. Þau spurðu okkur ítrekað hvers vegna við tækjum ekki aðgangsgjald inní landið, líkt og t.d. Nýja Sjáland og mörg lönd sem þau hafa heimsótt. Við gerðum okkar besta til að útskýra þær deilur sem hafa staðið þar um, en þau hristu bara hausinn og töldu ferðamenn hafa fullan skilning á því að fámenn þjóð þyrfti sérstaka innkomu til að tryggja verndun sinnar náttúru og innviða. Hvers vegna höfum við ekki enn náð sátt um slíkt gjald og útfærslu á því? Ég hef enn ekki heyrt nein haldbær rök fyrir því, eingöngu skynjað mikla ósátt og mögulega lögfræðileg vandkvæði, sem þó virðast mér auðleyst. Eitt aðgangsgjald við komu inn í landið virðist skynsamlegri leið en ýmiskonar tilraunargjaldtaka hér og þar. Það mætti í upphafi beina slíku fjármagni til mikilvægrar náttúruverndar og uppbyggingar salerna um allt land og svo í styrkingu samgangna, löggæslu og björgunarsveita. Hvað ætlum við að láta mörg ár líða án þess að láta til skarar skríða með þetta þegar við sjáum t.d. Nýja Sjáland gera þetta með góðum árangri? Þar eru meira að segja rukkaðir “útgönguskattar” og þeir undanskilja ekki ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum.

Stöndum vörð um íslenskt samfélag, menningu, mat og tungu

Í hvert sinn sem ég fæ erlenda gesti legg ég mig fram um að kynna þeim íslenskt samfélag, menningu, mat og tungu. Í þessu felst okkar sérstaða og þetta er sú upplifun sem ferðamenn leita eftir. Það sem stendur uppúr umfram náttúruna sjálfa eru heimsóknir til vina og ættingja, samtöl við Íslendinga í sundlaugum borgarinnar, íslenskir leiðsögumenn og þjónustufólk, sagan, þjóðsögurnar, íslenskir söngvar, íslenska nafnahefðin (og mannanafnanefndin), símaskráin, hákarlinn, humarinn, skyrið, sviðasultan, íslenska lambalærið, harðfiskurinn og æfingin í að bera fram “Eyjafjallajökull”. Það er ákaflega mikilvægt að standa vörð um alla þessa hluti og kynna þá með stolti fyrir okkar gestum. Það gerir íslenska upplifun ekta og öðruvísi, og í því felst ekki síst samkeppnisfærni okkar í ferðaþjónustu. Við eigum því ekki að gefa miðbæinn okkar og matarvenjur of auðveldlega eftir. Við eigum að halda í íslensk nöfn á veitingastöðum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Þó svo að þörf sé á erlendu vinnuafli eigum við áfram að gera hvað við getum til að bjóða uppá íslenska upplifun. Margir eru að gera þetta afskaplega vel, en of mörg dæmi eru um að hér séum við að tapa tækifærum.

IMG_7066

Súrdeigsbökur með plokkfiski og reyktum silungi á Kaffi Laugalæk

Verðleggjum skynsamlega

Það ferðast enginn um landið með erlenda gesti án þess að fá athugasemdir um íslenskt verðlag. Við Íslendingar erum vön því að vera dýr, en þetta sumarið gekk líka fram af okkur. Hvernig má það vera að lítill bjór kosti kr. 1800 ($18) og vatn kosti kr. 500 ($5) í verslun á vinsælum ferðamannastað (hér er ekki um að ræða veitingastað með þjónustu, heldur sjálfsafgreiðslu úr verslun). Það er mikilvægt að taka fram að víða er verð sanngjarnt og í fullu samræmi við gæði þjónustu og upplifunar. Hér vil ég t.d. sérstaklega hrósa Friðheimum og veitingastaðnum Hraunsnefi í Borgarfirði.

IMG_7043

Friðheimar taka tómatinn alla leið

Horfum í spegilinn og hættum að benda út um gluggann

Að lokum langar mig að hvetja okkur til þess að eiga uppbyggilegar umræður um þróun ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á okkar samfélag, náttúru og innviði. Mér er ekki sama, og okkur á ekki að vera sama. Við getum ekki svo auðveldlega undið ofan af óafturkræfum náttúruspjöllum eða neikvæðum upplifunum okkar gesta, en við getum lært af þeim. Við getum og eigum að temja okkur uppbyggilega og lausnamiðaða nálgun. Við verðum að hafa hugrekki til að horfa í spegilinn og hætta að benda út um gluggann þegar við erum ósátt við þróun mála. Við blasir að ferðaþjónustan er okkur öllum mikilvæg, hún skapar hér nauðsynlega atvinnu og verðmæti og margir eru loks að hagnast vel í þessari grein. Því ber að fagna, en forystu, framtíðarsýn og hugrekki þarf til að svo verði áfram.