Skilaboðin í Skálinni

06.02.2017

Í gær vöktum við fjölskyldan frameftir og horfðum á Ofurskálina (Super Bowl). Ég bjó í Bandaríkjunum í áratug og vann m.a. hjá Pepsi Cola, sem lengi hefur litið á Super Bowl Sunday sem sinn stærsta (og dýrasta) markaðsviðburð. Ég hef því fylgst með þessum stórviðburði í amerískum íþróttaheimi í einhverja áratugi en leyfi mér að fullyrða að í nótt hafi bæði leikurinn sjálfur (allavega síðari hlutinn) og sýningin öll farið langt fram úr mínum væntingum.

Fimmtán ára sonur okkar var líklega áhugasamastur fjölskyldumeðlima um leikinn, enda snýst líf hans að miklu leyti um fótbolta og hann æfir ekki lengur bara þann íslenska með Breiðabliki, heldur einnig þann ameríska með Einherjum. Hann er auk þess einlægur aðdáandi New England Patriots, svo einlægur að það eina sem hann óskaði eftir í jólagjöf var New England Patriot fótboltatreyja, Nr. 12, orginal, takk fyrir. Ég lagði mikið á mig (og aðra) við að finna slíka treyju í ferð minni til Boston í nóvember sl., en sá ekki eftir því þegar ég upplifði gleði hans á jólunum og ekki síður í gær þegar hann fullur eftirvæntingar klæddist treyjunni góðu. Dóttir okkar var ekki síður spennt fyrir leiknum, kannski bara fyrir því að fá að vaka, kannski af því að í hálfleik var lady Gaga. Ég var ekki viss í gær, en veit í dag að það var þess virði að leyfa þeim að vaka og taka inn skilaboðin sem fólust í Ofurskálinni 2017.

Ekki gefast upp þó á móti blási

Sonur okkar var hreint ekki upplitsdjarfur þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og Patriots voru einungis með þrjú stig á móti 28 stigum Atlanta Falcons. Það var auðvelt að gefast upp, bæði sem leikmaður og áhorfandi. Ég spurði börnin hvort þau vildu ekki bara fara að sofa. Þau harðneituðu því bæði, sem betur fer. Við tók einhver sá ótrúlegasti kafli sem ég hef séð í íþróttaleik. Tom Brady, reyndasti maður liðsins og sigursælasti quarterback sögunnar, leiddi viðsnúning sem er kominn í sögubækurnar sem mesti viðsnúningur í sögu Super Bowl. Þegar síðasta sókn Patriots hófst var staðan 28-20, Atlanta Falcons í vil. Hungur Patriots í sigur sýndi sig í síðustu sókninni, en í henni tókst Patriots að jafna og fara svo í framlengingu, þar sem þeir tryggðu sér örugglega sinn fimmta Super Bowl sigur. Tom Brady sagðist hafa lagt sig allan fram fyrir móður sína sem berst við veikindi, en var viðstödd leikinn, og sýndi hann sérlega mannlega hlið á sér þegar hann fór ekki í felur með tilfinningarnar og ást sína á sinni fjölskyldu að loknum leiknum.

Ekki fagna of snemma

Það er ekki gott að segja hvað gerðist hjá Atlanta Falcons, sem misstu frá sér eitthvert það þægilegasta forskot sem nokkurt lið hefur haft í Super Bowl. Mögulega fögnuðu þeir sigri of snemma? Það var í það minnsta eftirá kaldhæðni í því að sjá allt í einu eiganda liðsins á hliðarlínunni, mættur í sparifötunum til að fagna sigri liðsins (og sýna sig?). Svipbrigði hans á meðan á viðsnúningi Patriots stóð voru í senn spaugileg og sorgleg. Það boðar aldrei gott að fagna sigri of snemma. Leikurinn er ekki búinn fyrr en hann er flautaður af og reynt keppnisfólk býr yfir karakter til að klára leikinn eins og íslenska karlalandsliðið gerði svo eftirminnilega á EM.

Screen Shot 2017-02-06 at 15.12.24

Fyrirtækin fagna fjölbreytni

Margir hafa ekkert gaman af leiknum sjálfum, en horfa á sýninguna í kringum leikinn og fylgjast af athygli með dýrustu auglýsingum ársins í leikhléum. Ég hef ekki síður gaman af þessum hluta leiksins og í ár fann ég í þeim mörg hvetjandi skilaboð. Það er augljóst að listamenn og fyrirtæki fagna fjölbreytileikanum og hafna stjórnmálalegri forystu sem elur á ótta og einsleitni. Þetta fannst mér t.d. koma skýrt fram í upphafsatriði Hamilton leikaranna sem aftur storka viðteknum venjum og minnast ekki eingöngu á bræðralag, heldur líka systralag í sínum texta. Þá voru þær ófáar auglýsingarnar sem töluðu fyrir fjölbreytni og gagnrýndu á mjög opinskáan máta hugmyndir um vegg á landamærum Mexikó sem og almennu hatri í garð innflytjenda. Sem fyrrverandi starfsmaður Pepsi á ég nokkuð erfitt með að hrósa Coke, en auglýsing þeirra var fallegur óður til fegurðarinnar í fjölbreytileikanum. Budweiser undirstrikaði mikilvægi þess að taka vel á móti innflytjendum og Airbnb lagði áherslu á að samþykkja hvert annað. Þá vakti það ekki síður athygli mína að Audi vöktu athygli á því að enginn faðir vill segja dóttur sinni að hún sé minna virði en karlarnir sem hún mun keppa við í lífinu. Ég verð þó að viðurkenna að fljótleg athugun leiddi í ljós að í stjórn Audi er engin kona, svo ég mun ólíklega nýta vald míns veskis í þeirra þágu þrátt fyrir að taka heilshugar undir skilaboðin.

Hér má lesa um og horfa á auglýsingarnar sem skemmtu og hreyfðu við áhofendum Ofurskálarinnar. Auglýsingin “Football is family” átti ekki síst við upplifun okkar fjölskyldunnar eftir ánægjulegt kvöld yfir Ofurskálinni og öllu sem henni fylgir. Meira að segja hundurinn segist ætla að vaka aftur næsta ár.

IMG_5056