Loftslagsleiðtogar óskast

05.01.2017

Ný ríkisstjórn verður líklega mynduð hér innan skamms. Hver sem niðurstaðan verður þá langar mig að hvetja stjórnmálaleiðtoga okkar til að nota þessi tímamót til að setja loftslagsmálin á dagskrá og tryggja að þau verði órjúfanlegur og mikilvægur hluti af nýjum stjórnarsáttmála.

Líkt og margir, þá horfði ég í gærkvöld á stórmerkilega heimildamynd Leonardo DiCaprio, Before The Flood. Myndin var sýnd á RÚV og ætti því enn að vera aðgengileg á tímaflakki, en á hana má einnig horfa (án endurgjalds) á Youtube. Ég ætla hvorki að endurtaka hér innihald myndarinnar né helstu skilaboð, en langar að hvetja ykkur sem misstuð af henni til þess að sjá hana sem allra fyrst. Ég geri mér grein fyrir því að enn eru ýmsir sem efast um að loftslagsvandinn sé raunverulegur, einn slíkur var nýlega kjörinn leiðtogi frjálsa heimsins. Hann hefur líklega ekki horft á myndina og hefur skipað ríkisstjórn sem annaðhvort hefur ekki kynnt sér vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar eða er einfaldlega sama. Veit ekki hvort er verra, en trúi því að íslenskir stjórnmálaleiðtogar vilji vera betur upplýstir og séu almennt betur meinandi.

Ég hef lengi látið mig varða ábyrga hegðun gagnvart umhverfi og náttúru. Fyrir rúmlega tíu árum hlustaði ég á fyrirlestur Al Gore um heimildamynd sína, Inconvenient Truth. Þrátt fyrir að hafa þá þegar verið meðvituð um loftslagsvandann, reyndist myndin mér mikil vitundarvakning. Ég hef síðan nýtt hvert tækifæri til að hvetja fyrirtæki og leiðtoga þeirra til að setja þessi mál á dagskrá. Ég hef séð mörg dæmi þess að slíkt hefur leitt til aðgerða sem hafa skilað bæði fyrirtækinu og samfélaginu jákvæðum ávinningi. Því miður hef ég líka séð fjölmörg dæmi þess að fyrirtæki telji málaflokkinn vera áþján fremur en tækifæri. Slík fyrirtæki gera því miður fátt annað en það sem lög og reglur krefja þau um. Ég tel því einsýnt að stjórnvöld gegni mikilvægu hlutverki við að knýja á um úrbætur.

Síðastliðið vor hlýddi ég öðru sinni á fyrirlestur Al Gore. Fyrirlesturinn var að sumu leyti sambærilegur þeim fyrri því eftir hann var ég ekki í nokkrum vafa um að vísindin staðfesti vandamálin, stærð þeirra og alvarleika. En það sem vakti að þessu sinni með mér von í brjósti var fjöldi dæma um nýjar lausnir. Um allan heim starfa frumkvöðlar af ástríðu að sjálfbærum lausnum á fjölbreyttum og flóknum vandamálum og fjárfestar hafa aukinn og vaxandi áhuga á að styðja slík fyrirtæki. Framtíð barna okkar þarf því ekki að vera svört, hún getur verið mjög björt, ef að við tökum höndum saman hér á landi og ákveðum að vera í forystu og verða þannig öðrum þjóðum fyrirmynd og hvatning. Þar liggur að mínu mati eitt stærsta tækifæri okkar smáu en stórhuga þjóðar.

Loftlagsráðstefnan í París ályktaði að við þyrftum: “One point five to stay alive.” Það er verkefni okkar allra að sjá til þess að hitastig heimsins hækki ekki um meira en eina og hálfa gráðu ef tryggja á líf og lífsgæði fyrir okkar afkomendur. Sú staðreynd ætti að duga til þess að fá okkur öll uppá tærnar. Einhverra hluta vegna heyrist þó lítið um þennan málaflokk þegar fluttar eru fréttir af viðræðum og samningum stjórnmálaflokka og þeirra leiðtoga. Er framtíð barna okkar ekki örugglega mikilvægari en hver fær hvaða embætti?

before-the-flood-dicaprio-og-obama