Í góðum félagsskap á TED í San Francisco

27.10.2016

Er stödd í San Francisco þar sem ég mun öðru sinni halda ræðu á TED ráðstefnunni. Ég hef verið beðin um að segja sögu mína af forsetaframboðinu undir yfirskriftinni “It’s time to lead”. Ég er hér í einstaklega góðum félagsskap eiginmanns míns og fjölda bæði þekktra og óþekktra fyrirlesara, sem hver og einn stígur á svið og segir sína einstöku sögu. Ég talaði fyrst á TED ráðstefnu árið 2010 og var það ólýsanleg lífsreynsla. Ég var svo taugaóstyrk að ég mundi satt að segja ekki orð af því sem ég ætlaði að segja þegar ég steig á sviðið. Ég komst í gegnum fyrirlesturinn með því að horfa í fallegu brúnu augun hennar Sally Field, sem í mínum huga var þá Nora, móðirin í sjónvarpsþáttunum Brothers & Sisters. Hef enn þann dag í dag ekki getað hugsað mér að horfa á fyrirlesturinn minn, en veit að meira en hálf milljón manna hefur gert það og hefur hann víst verið þýddur á 28 tungumál.

Ég horfi hinsvegar reglulega á TED fyrirlestra annarra og finn í þeim bæði lærdóm og innblástur. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur ótrúlegt framboð fyrirlestra á TED.com
Ég hlakka virkilega til að hlusta á þann frábæra hóp sem hingað er kominn til að deila sínum sögum af einlægni og ástríðu. Það eru forréttindi að fá að hitta fólk úr öllum heimsins hornum, kynnast því og finna að þegar allt kemur til alls þá erum við mannfólkið svo miklu meira lík en ólík. Við erum til dæmis öll jafn kvíðin því að stíga á svið, bera sögu okkar og sál og setja hana í dóm alheimsins.
Ég veit ekki hvort eða hvenær fyrirlestur minn verður í boði á vefsíðu TED, þeir gefa sér allt í ár til að velja þá bestu til birtingar. Ég þigg alla góða strauma kæru vinir og sendi ykkur hlýju og sól frá San Francisco.

mynd-med-elizabeth-lesser