Um forsetaframboð og kappræður sem halda fyrir manni vöku

28.09.2016

Að lokinni einstakri norðurljósasýningu í fyrrakvöld settist ég niður til að fylgjast með sögulegum kappræðum forsetaframbjóðenda Bandaríkjanna, Hillary Clinton og Donald Trump.

Ég á marga vini, bæði hér heima og í Bandaríkjunum sem eru ekki á eitt sáttir um Hillary. Þeir hinir sömu eru afskaplega uppteknir af göllum hennar og sumir eiga enn erfitt með að komast yfir það að fá ekki Bernie Sanders. Ég þekki sem betur fer engan sem viðurkennir stuðning sinn við Donald Trump, en engu að síður sýna skoðanakannanir að það er mjótt á munum og allt getur gerst.

Hillary Clinton er ekki gallalaus, fremur en nokkur manneskja, en staðreyndin er að mótframbjóðandi hennar er einfaldlega ekki hæfur til starfsins. Hillary sýndi að mínu mati í þessum kappræðum að hún hefur bæði gáfur og gerð til starfsins. Hún mætti til leiks vel undirbúin, var yfirveguð og færði góð rök fyrir sínum málstað. Hún brosti líka meira en oft og það skiptir máli, því rannsóknir sýna að konur mega ekki vera “of harðar”, því þá líkar fólki verr við þær. Staðreynd sem Hillary hefur sannarlega fengið að finna fyrir í kosningabaráttunni.

Donald Trump virkaði illa undirbúinn, var á köflum hrokafullur og missti ítrekað stjórn á skapi sínu. Hann greip 51 sinni frammí fyrir Hillary – meira en tvisvar sinnum oftar en hún greip frammí fyrir honum – og ásakaði HANA síðan um að hafa ekki skapgerð í starfið.

Þegar forseti Bandaríkjanna talar, þá eigum við að fara fram á innihald, ekki upphrópanir. Í kappræðunum kom bersýnilega í ljós að áratuga reynsla Hillary í störfum sem forsetafrú, utanríkisráðherra og þingmaður hefur skilað henni djúpri þekkingu á öllum þeim málaflokkum sem ræddir voru. Slíka þekkingu og reynslu var ekki að finna hjá Trump sem státaði sig einna helst af stórkostlegum árangri í viðskiptum en neitar að leggja fram skattaskýrslur því tilsönnunar.

Fylgi Trump má að miklu leyti rekja til sömu róta og fylgi Bernie Sanders. Jafn ólíkar pólitískar stefnur og þessir tveir menn aðhyllast, þá má segja að fylgi þeirra komi frá andstæðingum kerfisins, fólki sem hefur misst trú á kerfunum eins og þau eru, og framtíð sinni innan þeirra. Þetta fólk upplifir skert lífskjör og möguleika á sama tíma og mikill uppgangur er hjá því brotabroti Ameríkana sem sífellt efnast meira. Það er óneitanlega merkilegt að Trump, sem vissulega tilheyrir þeirri elítu, skuli takast að telja Ameríkönum trú um að hann sé sá sem geti lagað þetta ástand, með innantómum frösum eins og “Make America Great Again”.

En óánægjan er raunveruleg og Hillary Clinton fær vonandi tækifæri til að bregðast við henni, sem forseti Bandaríkjanna. Hún þyrfti kannski að einfalda tungutak sitt nokkuð og vera einlægari til að tryggja að svo verði. Hún hefur gert mistök og hefur viðurkennt þau, en meiri auðmýkt um það myndi vafalaust verða henni til framdráttar og gefa henni kost á því að verða forseti sem “Actually Makes America Great Again”.

Credit: Barbara Kinney / Clinton Global Initiative CGI Annual Meeting 2013 Principal

Credit: Barbara Kinney / Clinton Global Initiative
CGI Annual Meeting 2013
Principal