Vangaveltur um framboð, prófkjör, konur og kerfið

12.09.2016

Í kjölfar forsetakosninganna í sumar skoruðu fjölmargir á mig að gefa kost á mér til starfa í stjórnmálum. Stórlega ýktar fréttir af mögulegu framboði mínu birtust í fjölmiðlum, sem reyndar spurðu mig aldrei. Slíkar fréttir juku þrýsting um að íhuga framboð og fékk ég hvetjandi og falleg skilaboð úr öllum áttum. Fyrir það er ég einlæglega þakklát.

En hvers vegna gefur kona, sem vill gera gagn og láta gott af sér leiða, ekki kost á sér í stjórnmálin? Einfalda svarið er, að mig langar ekki að taka þátt í hefðbundnum stjórnmálum eins og er, og hef efasemdir um að það sé besta leiðin til að sinna markmiði mínu um að reyna að bæta heiminn. Af virðingu við ykkur sem hafið í einlægni og ítrekað hvatt mig til dáða langar mig að útskýra þær lauslega.

Að velja sér lið

Þátttaka í hefðbundnum stjórnmálum þýðir að maður þarf að velja sér lið og taka stöðu með sumum og á móti öðrum. Þessi lið hafa flest skipað sér á úreldan kvarða hægri eða vinstri og afstaða þeirra í málum tekur oft á tíðum meira mið af þeim kvarða fremur en heilbrigðri skynsemi og/eða heildarhagsmunum. Þá fæ ég það of oft á tilfinninguna að fólk óttist að fylgja eigin sannfæringu og flokkshollustan skili sér í hjarðhegðun. Mér hugnast ekki slík nálgun og get einfaldlega ekki hagað mér á þann hátt, ég hef of sjálfstæðan vilja. Ég efast líka um að slíkt sé líklegt til árangurs.

Eðli prófkjöra

Prófkjör þvinga fólk til að etja kappi við þá sem þeir eiga síðan að vinna með. Sú barátta verður oft hatrömm og ýmsir beita aðferðum sem ekki eru til eftirbreytni. Ég hef starfað stóran hluta ævinnar við að skapa árangursríkar liðsheildir og leyfi mér að fullyrða að til lengri tíma litið séu prófkjör hvorki vænleg fyrir einstaklingana né liðið í heild. Ekki er ólíklegt að konum og körlum sem heldur vilja samstarf en samkeppni, hugnist illa að taka þátt í að berja niður eigin samstarfsmenn. Sú einsleitni sem prófkjörin virðast nú leiða til, hlýtur að hvetja til þess að aðferðin verði endurskoðuð með það að markmiði að setja saman árangursríka og fjölbreytta framboðslista.

Óvægin umræða

Þátttöku í stjórnmálum fylgir óvægin umræða í fjölmiðlum og samfélaginu öllu, sem særir ekki bara viðkomandi heldur einnig fjölskyldu og vini. Góður maður lagði til að stofnaður yrði stuðningshópur fyrir stjórnmálafólk. Hópur sem myndi beita sér fyrir manneskjulegri og sanngjarnri umræðu og minna okkur á að þakka fólki fyrir að vera tilbúið til að vinna í þágu okkar allra. Ég hef heyrt verri hugmyndir en þessa. Eins mikilvæg og umræða er stjórnmálum og lýðræði, er ömurlegt að sjá hve lágt hún stundum leggst. Ég kynntist þessu af eigin reynd í forsetaframboðinu en ákvað að taka slíku með æðruleysi og auðmýkt og einbeita mér að því að setja annarskonar fordæmi, tala fallega til og um mína meðframbjóðendur og nálgast alla af virðingu. Ég get með sanni sagt að það hafi skilað sér í auknu fylgi og get því hiklaust hvatt þá sem taka þátt í stjórnmálum til að temja sér slíka nálgun. Ég hvet líka fjölmiðlafólk og aðra álitsgjafa til að gera það sama. Við fáum mun betra fólk til forystu ef við tökum höndum saman um að vera gagnrýnin, en ekki óvægin, fara í boltann en ekki manninn.

Að vera kona

Í kjölfar slaks gengis kvenna í prófkjörum undanfarið spratt upp mikil og nauðsynleg umræða um mikilvægi fjölbreytni í forystu. Spurningar vakna um hvort kynferði skipti máli fyrir árangur í stjórnmálum. Margir hafna slíkri umræðu og segja að hæfnin ein eigi að skipta máli. Því er ég í sjálfu sér sammála, en spurningin er: hvaða hæfni? Auk þess verður ekki hjá því komist að vísa til rannsókna og reynslu, sem sýna svo ekki verður um deilt, að við lítum ekki konur og karla sömu augum og mælum þau ekki á sama kvarða. Þetta er ekki vegna samsæris karla gegn konum, heldur afleiðing ómeðvitaðra viðhorfa sem hafa áhrif á bæði konur og karla. Ómeðvituð viðhorf verða ekki upprætt nema með umræðu og því er mikilvægt að ræða þessi mál án dómhörku og án þess að skipa okkur í lið og skríða ofan í skotgrafirnar. Lið Íslands þarf á öllu sínu besta fólki að halda til forystu og okkur mun takast best upp ef við náum að hvetja frábærar konur og karla til að gefa kost á sér til starfa í stjórnmálum og til forystu almennt. Fyrirmyndir skipta máli. Skilaboð helgarinnar og almenn hegðun á Alþingi munu því miður letja fólk sem við þurfum á að halda. Fjölmiðlar þurfa líka að velta fyrir sér hvort þeir styrki ómeðvituðu viðhorfin í sessi með umfjöllun sinni og vali á viðmælendum, eða storki viðteknum venjum, gæti jafnvægis og veiti konum sama aðgengi og körlum. Ég þekki mörg dæmi þar sem jafnræðis er illa gætt. Það vekur einnig athygli að langflestir stjórnendur umræðuþátta, sérstaklega í útvarpi, eru karlar. Ómeðvitað kann það að lita bæði umræðu og val á viðmælendum.

the-female-candidate-liza-donnelly

Rík þörf til að standa með sjálfri mér og starfa í jákvæðu umhverfi

Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til forseta, ákvað ég jafnframt að vegferðin yrði að vera í mínum eigin anda. Þessar forsetakosningar voru á margan hátt sérstakar og því miður gáfust færri tækifæri til samtals við kjósendur en ég hefði óskað. Þegar erfitt reyndist að ná athygli fjölmiðla ráðlögðu ýmsir mér að breyta mér, að segja ekki þetta heldur hitt, að hjóla í þennan og hinn, og svo framvegis. Ég er þakklát ykkur sem stóðuð mér næst og hvöttuð mig ávallt til að vera ég sjálf. Við náðum að fara í gegnum allt ferðalagið með jákvæðni og gleði. Ég finn fyrir einlægu og djúpu þakklæti fyrir vegferðina og fyrir ykkur sem fóruð með mér í hana, stuðningur ykkar er mér ógleymanlegur.

Mér finnst ekki létt að segja nei við ykkur sem hafið hvatt mig til að gefa kost á mér til stjórnmálastarfa, því mig langar að gera gagn og láta gott af mér leiða. En mig langar ekki að taka þátt í flokkspólitísku stjórnmálastarfi eins og það er í dag og treysti mér hvorki til að velja lið né gefa afslátt af því sem ég stend fyrir. Ég er virkilega þakklát þeim sem gefa kost á sér til þátttöku í stjórnmálum fyrir að leggja það á sig og sína. Ég vona að bæði nýir og reyndir stjórnmálamenn og konur hafi hugrekki til að leiða nauðsynlegar breytingar, bæði á úreldum kerfum og á þeirri umræðuhefð sem hér hefur tíðkast. Ég hvet okkur hin til að styðja þá sem það gera, bæði í orði og á borði.