Endurskilgreinum árangur

11.09.2016

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að tilgangur fyrirtækja sé ekki einungis að skapa arð fyrir hluthafa og hef fylgst áhugasöm með fyrirtækjum og leiðtogum sem eru sama sinnis. Á námsárum mínum las ég bókina Byggt til að endast (Built to Last) eftir Jim Collins og Jerry Porras. Niðurstöður langtímarannsókna höfunda sýndu að framúrskarandi fyrirtæki (þau sem skiluðu umtalsvert hærri arði til lengri tíma litið) eiga það sameiginlegt að hafa skýra hugmyndafræði og tilgang umfram fjárhagslegan arð. Þessi bók er af mörgum talin ein áhrifamesta viðskiptabók okkar tíma og Jim Collins er stundum líkt við rokkstjörnu rekstrarhagfræðinema.

Þó vissulega megi finna þess mörg dæmi að fyrirtæki og leiðtogar þeirra láti niðurstöður Collins sem vind um eyrun þjóta, sjást nú í vaxandi mæli merki um að fyrirtæki séu að endurskilgreina viðhorf sín til árangurs. Árið 2007 fór af stað hreyfing í Bandaríkjunum sem hefur það markmið að hvetja fyrirtæki til að skila þrefaldri rekstrarniðurstöðu (Triple Bottom Line: Profit – People – Planet). Fyrirtækið B Lab var stofnað sama ár og sér um að votta þau fyrirtæki sem velja sér tilgang umfram fjárhagslegan arð. B fyrirtæki láta það ekki duga að sinna tilfallandi samfélagslegum verkefnum heldur innlima samfélagslega- og umhverfislega ábyrgð í tilgang og samþykktir félagsins og starfa samkvæmt skýrum leikreglum. Vottuð fyrirtæki þurfa að uppfylla skýra staðla og frammistaða þeirra hvað varðar samfélagslegan- og umhverfislegan arð er jafn gagnsæ og fjárhagsleg frammistaða þeirra.

triple-bottom-line

Í dag starfa um 1500 vottuð B fyrirtæki um allan heim, í 130 starfsgreinum og 42 löndum. Þeirra á meðal eru framúrskarandi fyrirtæki eins og Patagonia og Ben & Jerry’s en bæði fyrirtæki fóru frá upphafi ótroðnar og skemmtilegar slóðir í sínum fyrirtækjarekstri. Nýlega hlaut tískufyrirtækið Eileen Fisher einnig vottun sem B fyrirtæki en stofnandi þessi fyrirtækis hefur í þrjá áratugi sett aukna sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð á oddinn í sínum rekstri. Hún lítur á vottunina sem mikilvægt skref til að undirstrika það markmið fyrirtækisins að vera leiðandi afl jákvæðra breytinga í tískubransanum.

Frumkvöðlar og leiðtogar sem aðhyllast þrefalda rekstrarniðurstöðu segja að þessi nálgun í viðskiptum beri af sér aukinn ávöxt, sér í lagi þegar horft er til lengri tíma. Markaðslega skilar þetta aukinni tryggð við vörur þeirra og þjónustu og auðveldara er að laða að og halda í hæfileikaríkt starfsfólk. Slík fyrirtæki hafna alræði fjárfesta sem hugsa til skemmri tíma og kjósa að horfa til lengri tíma og til allra hagsmunaaðila. Sem betur fer er slíkt hugrekki einnig sýnilegt á meðal leiðtoga stórfyrirtækja en þar fer þessi misserin fremst í flokki forstjóri Unilever. Paul Polman tók við stjórntaumunum í Unilever í kjölfar efnahagshrunsins, árið 2009. Hans fyrsta verk var að segja hluthöfum sínum að þeir myndu ekki fá ársfjórðungslegar skýrslur því hann ætlaði að horfa til lengri tíma. Frá þeim degi hefur hann sagt að verðmætasköpun Unilever verði byggð á auknu jafnrétti og sjálfbærni.

Hugrakkir leiðtogar eins og Eileen Fisher og Paul Polman skipta sköpum, ekki bara fyrir sín fyrirtæki heldur fyrir allt samfélagið. Tilgangur þeirra er að endurskilgreina árangur í viðskiptum, því hvaða leiðtogi getur verið stoltur af árangri sem kemur á kostnað samfélags og/eða umhverfis? Ég fagna aukinni umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvet frumkvöðla og leiðtoga viðskiptalífsins til að endurskilgreina árangur í viðskiptum og endurheimta þannig það traust sem viðskipti þurfa að njóta.